Karellen

Hvernig við vinnum með fjölgreindakenningu Howards Gardners

Howard Gardner hefur enga trú á að til sé ein rétt leið til að hagnýta kenningu hans um fjölgreindir. Grundvöllur kenninga hans sé virðing fyrir margbreytileika mannanna, fjölbreyttum námsaðferðum, fjölda möguleika á að meta námsárangur og hinum óteljandi leiðum sem menn geti farið til að setja mark sitt á veröldina.

Samkvæmt Gardner eru greindirnar: Málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, tónlistargreind, líkams- og hreyfigreind,samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind

Ef við skoðum hreyfistund hjá börnunum sem er í salnum vikulega, þá eru börnin að sjálfsögðu að nota líkams- og hreyfigreindina. En þau eru líka að nota málgreindina því þau tala saman, þau nota rýmisgreindina til að átta sig á svæðinu sem þau hafa til umráða eða hversu langt er út að horn í salnum, þau eru að nota samskiptagreindina til að vinna saman, þau eru að nota sjálfsþekkingargreindina til að átta sig á hvernig þau ætla að leysa verkefnið sem fyrir þau var lagt, þau nota tónlistargreindina þegar þau hlusta á tónlist eða þau syngja, þegar þau eiga td. að stoppa inn í hring á gólfinu eru þau farin að nota rök- og stærðfræðigreindina.

Þegar við vinnum með börnin notum við sterku greindir þeirra til að styðja við aðrar sem eru ekki eins sterkar. Svo við notum aftur dæmi úr hreyfistund, þá notar barnið sem er sterkt í líkams- og hreyfigreindinni þá greind til að hjálpa sér að byggja upp styrkleikann í tónlistargreindinni sem er ekki eins sterk og það getur líka verið á hinn veginn að barnið sem er með sterka tónlistargreind notar hana til að styrkja líkams- og hreyfigreindina.


Um frames of mind og þróun kenningarinnar

Árið 1983 kom út bókin Frames of mind eftir bandaríska sálfræðinginn Howard Gardner. Í þessari bók setur hann fram kenningu um að maðurinn búi yfir 7 greindum, sú áttunda hefur bætst við síðan, og hægt sé að þroska og þróa þessar greindir, sem er í andstöðu við það álit að maðurinn hafi aðeins eina greind og hún sé óumbreytanleg. Því gerði hann það viljandi að kalla þær greindir í stað hæfni eða getu.

Til að kallast greind en ekki bara hæfileiki eða sérgáfa, varð hver greind að standast átta mælikvarða. Meðal þeirra er að hver greind hefur ákveðna staðsetningu í heilanum og afleiðing heilaskaða er skert geta. Sem dæmi ef skemmd verður á Broca-svæðinu sem er í vinstra ennisblaði mun það hafa áhrif á getuna til að tala, lesa og skrifa, en viðkomandi getur sungið, dansað og reiknað. Gardner telur að greindirnar verði virkar þegar einstaklingur leggur stund á einhverja iðju og að framför einstaklingsins við slíka iðju fylgi ákveðnu þroskamynstri. Tónsmíðar virðast t.d. þróast snemma, en Mozart var fimm ára þegar hann byrjaði að semja, getan í stærðfræði kemur seinna eða á unglingsárum og það er hægt að verða góður skáldsagnahöfundur um fertugt.

  • Erla Kristjánsdóttir, Jóhann Ingi Gunnarsson og Sæmundur Hafsteinsson (2004).Lífsleikni.Sjálfstraust, sjálfsagi og samkennd, handbók fyrir kennara og foreldra.Reykjavík: Námsgagnastofnun

—Thomas Armstrong (2001).Fjölgreindir í skólastofunni.Þýðandi Erla Kristjánsdóttir. Reykjavík: JPV útgáfa.

—Thomas Armstrong (2005).Klárari en þú heldur.Þýðandi Erla Kristjánsdóttir. Reykjavík: Námsgagnastofnun

© 2016 - 2024 Karellen