Karellen

Saga Kirkjubóls

Kirkjuból hóf starfsemi 1. nóvember 1985 og er rekinn af bæjarfélaginu. Við formlega opnun leikskólans var helmingur núverandi húsnæðis tekinn í notkun. Þá voru börn ýmist í heilsdags- eða hálfsdagsvistun. Árið 1993 var ákveðið að Kirkjuból skyldi eingöngu vera heilsdagsleikskóli með pláss fyrir 54 börn. Í framhaldi af því hófust allmiklar framkvæmdir og breytingar á húsnæðinu.


Veturinn 1995-1996 var barnafjöldinn aukinn þannig að ávallt voru 61 börn samtímis í húsinu. Á Kirkjubóli voru eingöngu aldursblandaðar deildir 2-6 ára barna eða svokallaðar systkinadeildir og er hugmyndin með þeim sú að börnin læri hvert af öðru og hjálpist að. Haustið 2001 breyttist þessi skipan og Kanínudeild var breytt í deild fyrir yngri börn. Þetta tengdist því að inntökualdurinn hafði verið lækkaður. Útisvæðið hefur einnig verið lagfært þó nokkuð með tilliti til yngri barna.


Deildirnar hétu Kanínudeild, Kisudeild og Bangsadeild fram til vorsins 2015 en um veturinn 2014-2015 var fyrsti vetur þar sem börnin skiptust á deildar eftir aldri og fyrirkomulagið breyttist. Í tengslum við þær breytingar var ákveðið að breyta deildarnöfnunum og tengja þau náttúrunni, umhverfi okkar, og fór hugmyndavinna í gang þar sem ný nöfn voru valin eftir miklar vangaveltur. Holtsnafnið tengist hrauninu í Garðabæ sem ber heitið Hraunsholt, Heiðarnafnið kemur frá Heiðmörk og Heiðarlundi sem er næsta gata við leikskólann og Lundur tengist götunni sem leikskólinn stendur við, Kirkjulundur.


Alls eru 61 barn að hámarki í leikskólanum og deildirnar eru þrjár. Elstu börnin 4-6 ára eru á Heiði, miðhópurinn 2-4 ára eru á Lundi en yngstu börnin 1-3 ára eru á Holti.


Þess má geta að Kirkjuból stendur á landnámsjörð sem kom í ljós við frágang á leiksvæðinu árið 1985. Fór fram fornleifarannsókn á svæðinu og eru minjarnar varðveittar.

© 2016 - 2024 Karellen