Karellen

Eldhúsið

Í leikskólanum Kirkjubóli er lögð áhersla á hollt mataræði. Það sem lagt er til grundvallar eru ráðleggingar sem Landlæknisembættisembættið/Lýðheilsustöð hefur gefið út, þar er kveðið á um fjölbreytni og hollustu.

Matseðill mánaðarins er aðgengilegur í Karellen og einnig er hann á heimasíðu leikskólans og í fataherbergjum á hverri deild.

Í Karellen er skráð hvernig börnin á yngstu deildinni borðuðu.

Matráður leikskólans er Natalía Slobodeniouk og aðstoð í eldhúsi er Ingibjörg Bjarnadóttir.

Skipulag á matmálstíma

Í morgunmat fá börnin að jafnaði hafragraut tvisvar sinnum í viku, einu sinni er grautur úr byggflögum, kallaður kanilgrautur, hina tvo dagana er cheerios eða corn flakes og ráða börnin hvort þau vilja mjólk eða súrmjólk með, ennfremur geta þau fengið sér rúsínur út í ef þau vilja einhverja sætu. Einnig fá þau lýsi og ávexti.

Í hádegismat er fiskur tvisvar í viku. Í annað sinnið er hann matreiddur á mismunandi hátt, svo sem steiktur í raspi, með karrí og hrísgrjónum, bakaður með osti svo eitthvað sé nefnt. Hitt skiptið er fiskurinn gufusoðinn og heimabakað rúgbrauð með. Reynt er að vera með fjölbreytilegan fisk, svo sem þorsk, ýsu, löngu og lax en lýðheilsustöð segir mikilvægt að börnin borði feitan fisk a.m.k. einu sinni í mánuði. Hina dagana skiptast á súpur, grænmetisréttir, pastaréttir, kjötréttir, baunaréttir og einstaka sinnum pizzur þegar við gerum okkur dagamun. Þau fá kartöflur u.þ.b. tvisvar í viku, hýðishrísgrjón tvisvar í viku. Við tökum mið af samsetningu máltíða út frá disknum frá Lýðheilsustöð og eldað er út frá tillögu þeirra að skammta stærðum.

Lögð er áhersla á gott hráefni, eingöngu eru notuð hýðishrísgrjón, allt pasta er úr heilhveiti, ferskt grænmeti og ferskar kjötvörur.

Í síðdegishressingu fá börnin gróft og hollt brauð og er það heimabakað tvisvar til þrisvar í viku. Einnig fá þau mismunandi gerðir af hrökkbrauði, tekex og grófar bruður. Viðbit er smjörvi, 17% ostur, mysingur, smurostur, lifrarkæfa, kæfa, tómatar, agúrka, egg, kavíar, sykurlaust marmelaði, ávextir og stundum skinka. Sætabrauð er ekki á boðstólum nema í undantekningartilfellum.

Sykur

Öllum sykri er haldið í lágmarki, einnig er salt notað sparlega en alls kyns krydd mikið notað til að gera matinn bragðgóðan, ávextir og grænmeti eru í samræmi við tilmæli Lýðheilsustöðvar. Skammtastærðin fyrir börn undir tveggja ára er um 80 grömm í morgun- og síðdegishressingu og fyrir börn tveggja til fimm ára er það 125-150 grömm. Sum börn hafa mikla lyst á ávöxtum en önnur minni og því er ekki hægt að segja að hvert barn borði sinn skammt en allir fá hvatningu og hugað er að fjölbreytni.

© 2016 - 2024 Karellen