Velkomin á síðuna okkar

Á Heiði eru 22 elstu börn leikskólans

Fréttir frá deildinni eru sendar með tölvupósti á föstudögum til forráðamanna.

Börnunum er skipt niður í hópa í hópastarfi. Elsti árgangurinn er í bláum hóp og næst elsti í grænum hóp.

Netfang deildarinnar er: kb.heidi@leikskolarnir.is

Deildarstjóri er: Guðrún Matthíasdóttir, netfang hennar er: gudrunm@leikskolarnir.is

Foreldrar vinsamlega athugið að stundum getur þurft að gera breytingar á dagskipulagi vegna veðurs, manneklu eða annarra verkefna.

Frjáls leikur/Val:
Við notum leiksvæðaval. Þannig velja börnin sér fyrst og fremst ákveðið leiksvæði eða viðfangsefni frekar en leikfélaga, sem stuðlar að fjölbreyttari samskiptum innan barnahópsins.

Hlutverk:
Börnin skiptast á að sinna hlutverkum dagastjóra, veðurfræðings, forstofustjóra, baðherbergisstjóra, umsjónarmanna og eldvarnareftirlitsmanna. Þeim finnst spennandi að fá hlutverk og ábyrgðarkennd eflist.

Samverustund:
Stuttar stundir fyrir hádegisverð þar sem mest er lagt upp úr notalegheitum með ívafi af fræðslu, leikjum, söng og framsögn.

Sögustund:

Eftir hádegismat er róleg stund í öllum skólanum þar sem hlustað er á skemmtilegar sögur og ævintýri.

Listsköpun:
Myndsköpun/tónlist/leikræn tjáning ásamt fleiri listgreinum fléttast inní daglegt starf.
Litir og pappír eru ávallt í boði fyrir þá sem hafa áhuga.

Markviss málörvun:
Unnið með verkefni í markvissri málörvun úr samnefndri bók. Áhersla er lögð á hlustunarleiki, rímleiki, samstöfur, setningar og orð, forhljóð og hljóðgreiningu. Þessi vinna er forvarnarstarf gegn lestrarörðugleikum.

Lubbastund:
Í Lubbastundum er unnið eftir bókinni Lubbi finnur málbein sem er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn. Í bókinni er unnið með nám í þrívídd, þá er átt við sjónskyn, heyrnarskyn og hreyfi- og snertiskyn. Með því að vinna með hljóðanám í þrívídd er verið að æfa börnin í að tilenka sér íslensku málhljóðin, það brúar bilið milli stafs og hljóðs og að lokum kemur þetta börnunum á sporið í lestri og ritun. Ekki er verið að kenna börnum að lesa heldur hljóðin sem stafirnir segja.

Hreyfistund:
Blái hópurinn fer í hreyfistund Ásgarð á miðvikudögum kl. 9:30-10:30.
Græni hópur fer í hreyfistund í salnum á þriðjudögum kl.9:10.

Gott er að börnin séu ekki í sokkabuxum heldur frekar í léttum fötum fyrir hreyfistundir eins og stuttbuxum eða leggings.

Vinastund:
Unnið með vináttuverkefnið og Blæ bangsa. Í vinastundum gefast tækifæri til að ræða margvísleg mál sem geta komið upp í samskiptum á milli barnanna.

Samvinnustund:
Börnin sem fara í grunnskóla næsta ár koma saman einu sinni í viku í ca. 45 mín. í senn þar sem m.a. er unnið með helstu grunnþætti stærðfræðinnar, ýmis hugtök og almenna heimaþekkingu.

Vettvangsferðir:
Stefnt er að því að fara reglulega í vettvangsferðir og gefa börnunum tækifæri að kynnast nærumhverfinu sínu. Markmiðið er að styrkja úthald barnanna, efla samhæfingu, æfa umferðarreglur og kynnast umhverfinu og náttúrunni í sinni fjölbreyttustu mynd.

Leikskólaklæðnaður:

Æskilegt er að börnin séu klædd fötum sem henta leikskólaumhverfinu. Börnin fara í útiveru á hverjum degi sem útheimtir góðan og hlýjan útifatnað.

Mikilvægt er að hafa aukaföt í leikskólanum og merkja fatnað barnanna vel.

Leikfangareglur:
Leikskólinn er búinn prýðilegum leikfangakosti sem börnin njóta í sameiningu. Börnin mega hafa með sér að heiman bækur, spil eða geisladiska. Engin ábyrgð er tekin á einkahlutum barnanna.

Æskilegt er að börnin komi ekki með leikföng að heiman.

Afmæli í leikskólanum:
Afmælisbarnið skreytir sína eigin kórónu, fær fána í hólfið sitt og kröftugan afmælissöng. Það fær ennfremur að vera umsjónarmaður þennan dag, velja sér skrautlegan disk úr eldhúsinu til að borða af og velja hvaða sögu á að lesa í sögustund.

Við erum með vinsamleg tilmæli varðandi afmælisveislur heima hjá börnunum að bjóða annað hvort öllum strákum eða öllum stelpum á deildinni eða öllum aldurshópnum sem afmælisbarnið tilheyrir. Svona reglur eru í grunnskólanum og settar á til að koma í veg fyrir að börn upplifi sig utan hópsins og skilin útundan. Hægt er að fá netfangalista barnanna á deildinni hjá deildarstjóra eða leikskólastjóra til að senda tölvupóst á foreldra.

Afmælisboðskort og gjafir eiga alfarið að vera fyrir utan leikskólann.


Samkvæmt Aðalnámskrá Leikskóla ber leikskóla að leggja rækt við almennan þroska barns. Það felur í sér líkams- og hreyfiþroska, vitsmuna- og tilfinningaþroska, félags- og siðgæðisþroska, málþroska, fagurþroska og sköpunarhæfni.

Kubbasvæði: Kubbasvæðið er mikilvægt fyrir ýmsa þroskaþætti barns. Það eykur skilning þess á eðli, stærð, lögun. fjölda og ólíkum eiginleikum hluta og er því grunnur fyrir frekara stærðfræðinám. Í kubbaleik styrkist fínhreyfigeta og samhæfing, auk þess sem hugtakaskilningur eykst og sköpunargleði og ímyndunarafl fá útrás.

Heimiliskrókur: Þykjustu- og hlutverkaleikir eru góðir fyrir ímyndunaraflið og gera barni kleift að endurspegla reynsluheim sinn ásamt jafningjum sínum. Það felur í sér samvinnuhæfni og almenna þjálfun í mannlegum samskiptum. Auk þess sem tillfinninga-, félags-, siðgæðis- og málþroski eflist.

Listasmiðja: Fjölbreytt listsköpun eflir fagurþroska, samspil augna og handa styrkist og barn kynnist fjölbreyttum efnivið. Sköpunarkraftur, ímyndunarafl og tjáningarhæfni eykst sem og sjálfstæð vinnubrögð. Uppbyggileg gagnrýni styrkir sjálfsmynd og sjálfstraust barns.

Salur: Hreyfing er undirstaða annarra þroskaþátta en þannig styrkir barn skynfæri sín og hreyfifærni, sérstaklega grófhreyfingar, stöðugleika, fimi og samhæfingu. Hreyfing styrkir vöðva og bein og eykur andlega og líkamlega vellíðan. Barn verður meðvitaðra um sjálft sig og aðra, umhverfi sitt og rými. Þegar barn vinnur í hóp, eflist tillitssemi, umburðarlyndi, félagshæfni, samvinna og sjálfsstjórn. Bangsadeild hefur salinn til umráða tvo daga í viku, miðviku- og fimmtudaga og annan hvern föstudag. Salinn nýtum við bæði til skipulagðrar- og frjálsrar hreyfingar.

Heimastofa: Í heimastofu má m.a. finna efnivið sem reynir á fínhreyfingar barns, s.s. leir og perlur. Þar eru einnig ýmis konar bækur, púsl og spil sem krefjast samvinnu og sjálfstæðis barns, sem eykur samskiptahæfni og eflir félags- og siðgæðisvitund.

Útivera: Hreint og gott loft, hreyfing og sólarljós er nauðsynlegt til að barn þroskist og dafni eðlilega. Útivera eykur þol, úthald, almenna hreysti og heilbrigði barns og eflir samtímis grenndar-, umhverfis og menningarvitund þess.

Tiltekt: Tiltekt eftir leik eflir almenna umhverfisvitund barns og eykur skilning á að framkoma þess í því samhengi skiptir máli. Þetta á við um nánasta umhvefi barna, s.s. eigin fatnað og eigur leikskólans sem og náttúruna og almenningseignir.


© 2016 - 2019 Karellen