Karellen

Lýsing á leiksvæðum

í frjálsa leiknum notum við leiksvæðaval. Þannig velja börnin sér fyrst og fremst ákveðið leiksvæði eða viðfangsefni frekar en leikfélaga, sem stuðlar að fjölbreyttari samskiptum innan barnahópsins. Þessi svæði eru:

Heimastofa: Í heimastofu má m.a. finna efnivið sem reynir á fínhreyfingar barns, s.s. leir og perlur. Þar eru einnig ýmis konar bækur, púsl og spil sem krefjast samvinnu og sjálfstæðis barns, sem eykur samskiptahæfni og eflir félags- og siðgæðisvitund.

Kubbasvæði: Kubbasvæðið er mikilvægt fyrir ýmsa þroskaþætti barns. Það eykur skilning þess á eðli, stærð, lögun. fjölda og ólíkum eiginleikum hluta og er því grunnur fyrir frekara stærðfræðinám. Í kubbaleik styrkist fínhreyfigeta og samhæfing, auk þess sem hugtakaskilningur eykst og sköpunargleði og ímyndunarafl fá útrás.

Heimiliskrókur: Þykjustu- og hlutverkaleikir eru góðir fyrir ímyndunaraflið og gera barni kleift að endurspegla reynsluheim sinn ásamt jafningjum sínum. Það felur í sér samvinnuhæfni og almenna þjálfun í mannlegum samskiptum. Auk þess sem tillfinninga-, félags-, siðgæðis- og málþroski eflist.

Listasmiðja: Fjölbreytt listsköpun eflir fagurþroska, samspil augna og handa styrkist og barn kynnist fjölbreyttum efnivið. Sköpunarkraftur, ímyndunarafl og tjáningarhæfni eykst sem og sjálfstæð vinnubrögð. Uppbyggileg gagnrýni styrkir sjálfsmynd og sjálfstraust barns. Myndsköpun/tónlist/leikræn tjáning ásamt fleiri listgreinum fléttast inní daglegt starf. Litir og pappír eru ávallt í boði fyrir þá sem hafa áhuga.

Salur: Hreyfing er undirstaða annarra þroskaþátta en þannig styrkir barn skynfæri sín og hreyfifærni, sérstaklega grófhreyfingar, stöðugleika, fimi og samhæfingu. Hreyfing styrkir vöðva og bein og eykur andlega og líkamlega vellíðan. Barn verður meðvitaðra um sjálft sig og aðra, umhverfi sitt og rými. Þegar barn vinnur í hóp, eflist tillitssemi, umburðarlyndi, félagshæfni, samvinna og sjálfsstjórn. Heiði og Lundur hafa salinn til umráða tvo daga í viku og deila honum einnig á föstudögum. Holt nýtir salinn á milli 13 og 15 alla daga. Salinn nýtum við bæði til skipulagðrar- og frjálsrar hreyfingar.

Útisvæði: Hreint og gott loft, hreyfing og sólarljós er nauðsynlegt til að barn þroskist og dafni eðlilega. Útivera eykur þol, úthald, almenna hreysti og heilbrigði barns og eflir samtímis grenndar-, umhverfis og menningarvitund þess.

Tiltekt: Tiltekt eftir leik eflir almenna umhverfisvitund barns og eykur skilning á að framkoma þess í því samhengi skiptir máli. Þetta á við um nánasta umhvefi barna, s.s. eigin fatnað og eigur leikskólans sem og náttúruna og almenningseignir.

© 2016 - 2024 Karellen